
Hver er Geiri?
Ásgeir Ásgeirsson, eða Geirix eins og hann er þekktastur, hefur starfað til margra ára sem ljósmyndari. Þekktastur er hann fyrir fréttaljósmyndun sína.
Þar áður starfaði hann sem margmiðlunarhönnuður og svo kerfisstjóri.
Fyrst um sinn ólst Ásgeir upp í Tungunum, nánar tiltekið á Múla, þaðan sem móðurætt hans rak bú lengi.
Var hann mikill dugnaðar strákur og tók þátt í öllum helstu verkefnum á bænum. 6 ára gamall lyfti hann heybagga, eins og ekkert væri, og kastaði upp á vagn, hann vaknaði klukkan 7 á morgnanna til að mjólka kýrnar og gerði alls kyns prakkarastrik.
Inn á milli dvaldi hann löngum stundum hjá sveitungum annars vegar og fjölskylduvinum í Reykjavík hins vegar, og eignaðist með því móti frábær kjörsystkin sem hann hefur haldið tengslum við alla tíð síðan.

Unglingsárin
Eftir alvarlega misnotkun sem hann varð fyrir 13 ára, átti hann erfitt með tilfinningar og samskipti við fólk og leitaði þá í bækur. Telur hann sig enn þann dag í dag eina nemandann sem lesið hafi hverja einustu bók á bókasafni Grunnskólans í Hveragerði.
14 ára gamall, á meðan hann var enn í grunnskóla, lauk Ásgeir 2 einingum í forritun sem gildu til háskólaprófs.
Að grunnskóla loknum sótti Ásgeir grunndeild rafiðnaðar við Fjölbrautaskóla Suðurlands og bauðst einnig að sitja glænýtt nám í margmiðlunarhönnun hjá Prenttæknistofnun samhliða því.
Lærði hann þar allt frá ljósmyndun og framköllun, þrívíddarhönnun (VRML), prentun og prenttækni o.s.frv.
Keyrði hann daglega frá Hveragerði til Selfoss í FSu, svo þaðan til Reykjavíkur í námið hjá PTS og var kominn heim aftur upp úr 11 á kvöldin.

Listin kemur til bjargar
Geiri hefur einnig alltaf haft mikla ástríðu fyrir listum.
Á sínum yngri árum eyddi hann miklum tíma í leikhúsum Hveragerðis og Selfoss, þar sem hann starfaði sem ljósamaður. Notaði hann tækifærið þar og lærði á tilfinningar og tjáningu á ný eftir ofbeldið sem hann hafði orðið fyrir 13 ára.
Áratugum síðar sneri hann aftur í leikhúsið, en að þessu sinni með myndavélar að vopni, bæði stafrænar og filmu.
Myndaði hann mikið starfsemi Tjarnarbíós og minni leikhópanna þar. Var þá yfirleitt um sjálfboðavinnu að ræða, nema ef stórar sýningar voru í kortunum og hann fékk ekkert val um að fá greitt fyrir sitt starf.
Enn þann dag í dag nýtur hann vináttu og trausts þessa gríðarlega stóra hóps, enda virðist hann soga að sér vini eins og svampur í vatni!

Í Tjarnarbíói kynntist hann einnig fjölda myndlistarmanna sem um tíma höfðu þar aðstöðu fyrir módel session, þar sem lítill hópur kom saman og teiknuðu eða máluðu módel sem sátu fyrir fyrir hópinn.
Ásgeir sá þarna kjörið tækifæri til að bæði skrásetja sköpunarferli listamannanna, samskipti þeirra við módelin sín, og eins skapa nokkur listaverk sjálfur.
Hélt hann meðal annars sýningu í Gallerí Fold með myndum frá þessum samkomum, og gaf einnig út bók í takmörkuðu upplagi samhliða.